Fyrir rúmum 20 árum kynntist ég finnskum eðalmanni. Við vorum báðir nemendur í Tónlistarháskólanum í Piteå. Ég í orgelleik og kirkjutónlist, hann í hljóðupptökutækni. Á þeim tíma var afar lítið hlutfall umsækjenda tekið inn í hljóðupptökudeildina því hún þótti mjög góð.
Fyrsta sameiginlega verkefni okkar var að taka upp Legender eftir sænska tónskáldið Emil Sjögren. 24 lítil stykki í 24 tóntegundum. Við bókuðum tvær nætur í hinni fögru 13. aldar kirkju í Öjebyn, en þar er Grönlundsorgel í sænsk-rómantískum stíl. Dásamlegt hljóðfæri.
Það gekk ýmislegt hálf brösulega fyrri nóttina, tæknileg vandamál sem leystust þó. Við náðum bara að taka upp 5 verk. Maður fór svo bara í skólann um morguninn og byrjaði svo aftur næstu nótt vitandi að við þyrftum að klára 19 verk þá. Það tókst.
Ég man hvað mér þótti þetta samstarf skemmtilegt og þarna ákvað ég að ég myndi einhverntímann taka upp orgelplötu.
Nú eru liðin 20 ár og loksins komið að því að standa við loforðið sem ég gaf sjálfum mér. Upptakan átti að vera í mars, en við frestuðum henni auðvitað. Um miðjan ágúst kemur Håkan og við tökum upp orgelplötu með verkum eftir Buxtehude, Bach, Magnús Blöndal, Gísla Jóhann Grétarsson og e.t.v. eitt tónskáld í viðbót ;)
Håkan hefur reyndar komið oft hingað á þessu tímabili. Ég held að ég hafi unnið að amk 8 plötum með honum, sem kórstjóri, meðleikari eða pródúsent. Það hefur verið afar lærdómsríkt, því Håkan er upptökustjóri á heimsmælikvarða.
Ég hlakka mikið til samvinnu okkar vinanna í ágúst.
Hér eru 3 myndir. Ein frá því að við þáðum boð Håkans um að fara á tónleika með Ale Möller rétt fyrir utan Uppsala (einhverjir bestu tónleikar sem við höfum farið á um æfina), svo er það skyldumynd þegar við fáum okkur Max skyndihamborgara (nostalgía, var stoppistaður þegar maður fór heim af djamminu á námsárunum) og svo mynd af Håkan í viðtali í Landanum á Rúv, eftir að hann tók upp skritnu plötu Hymnodiu í Verksmiðjunni á Hjalteyri í 6 stiga frosti.
Comments