Tónaútgáfan - Heiðurstónleikar í Hofi
- Eyþór Jónsson
- Oct 16, 2022
- 1 min read
Þann 27. ágúst voru haldnir stórglæsilegir tónleikar í Hofi, en þar var farið í gegn um sögu Tónaútgáfunnar í tali og tónum. Haukur Pálmason, trommuleikari og sonur Pálma í Tónabúðinni stóð fyrir viðburðinum.
Úr auglýsingu fyrir viðburðinn:
Pálmi Stefánsson stofnaði Tónabúðina á Akureyri árið 1966. Verslunin seldi hljóðfæri, hljómtæki og hljómplötur. Það reyndist erfitt að bjóða upp á íslenskar plötur í Tónabúðinni þar sem Sportvöru- og hljóðfæraverslun Akureyrar hafði gert einkasölusamninga við flesta íslenska útgefendur. Pálmi stofnaði því Tónaútgáfuna árið 1967 ásamt Jóni Ármannssyni. Saman ráku þeir Tónaútgáfuna í nokkur ár en síðar keypti Pálmi hlut Jóns í fyrirtækinu og rak það til ársins 1985.
Pálmi var á þessum tíma jafnframt hljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar Póló sem naut mikilla vinsælda og fyrsta platan sem Tónaútgáfan gaf út var smáskífa með Póló og Bjarka.
Í kjölfarið fylgdu svo plötur með mörgum af vinsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar og má þar nefna Björgvin Halldórsson, Ragnar Bjarnason, Flowers, Ævintýri, Örvar Kristjánsson, Geirmund Valtýsson og Hljómsveit Ingimars Eydal. Árið 1970 gaf Tónaútgáfan út fyrstu íslensku safnplötuna og bar hún nafnið Pop Festival ‘70. Tónaútgáfan gaf einnig út hina goðsagnakenndu plötu Lifun með hljómsveitinni Trúbrot árið 1971.
Ég spilaði á píanó, Farfisu, Hammond og harmonikku með stórskemmtilegri hljómsveit. Hún var þannig skipuð:
Erna Hrönn, Magni Ásgeirs, Stebbi Jak, Summi Hvanndal og Stefán Elí sungu.
Magni spilaði á gítar og það gerði einnig Kristján Edelstein. Summi spilaði á bassa og Haukur á trommur.
Þorsteinn G. Gunnarsson rakti sögu Tónaútgáfunnar á milli lag.
Þetta var verulega skemmtilegt verkefni og ég vona að það verði endurflutt
Skapti Hallgrímsson hjá Akureyri.net tók þessar fínu myndir af viðburðinum:







Comments