Mér þykir sérstaklega vænt um jólatónleika Hymnodiu. Við erum búin að halda tónleika 22. desember á hverju ári lengi. Á þessum tíma sækja margir í ró og afslappað andrúmsloft. Við höfum alltaf dimmt í kirkjunni, tölum ekkert á milli laga, spinnum millispil til að tengja saman lögin og svo er ekkert klapp fyrr en í lokin.
Í gegn um tíðina höfum við fengið marga gesti til að spila og syngja með okkur. Í ár ætluðum við að rifja upp fyrstu árin með því að fá vinkonu okkar Láru Sóleyju Jóhannsdóttur til að spila með okkur, en hún á stóran hlut í hugmyndavinnunni í kring um tónleikana. Lára komst ekki norður og annar vinur okkar Emil Þorri Emilsson slagverksleikari stökk inn í verkefnið með dags fyrirvara og spilaði alveg hreint stórkostlega.
Ég reyni svolítið að breyta til í hljóðfæravali og í ár notaði ég bara Hammond og Rhodes píanó og slatta af allskonar effektum. Það virkaði ljómandi vel með víbrafóninum og öðru slagverki hjá Emil.
Daníel Starrason tók þessa fallegu mynd af tónleikunum um daginn.
Comments