Breytingar á starfi mínu við Akureyrarkirkju
Nú eru komin 17 ár síðan ég flutti heim úr framhaldsnámi. Þegar ég kom heim beið mín stórkostleg vinna við Akureyrarkirkju. Ég á mínum góða kollega og vini, Birni Steinari Sólbergssyni, það að þakka að ég er í þessari góðu vinnu og bý í þessum dásamlega bæ. Ég leysti Björn Steinar af veturinn 1998-1999, leysti hann síðan af í fríum og vann svo við hans hlið á árunum 2003-2006. Ég tók við Kór Akureyrarkirkju af Bjössa. Kórinn hefur frá því verið aðalhluti starfs míns við kirkjuna.
Frá 1. september nk. fer ég niður í 70% við kirkjuna og hætti um leið að vera stjórnandi kirkjukórsins
Ástæðan er þríþætt. Í fyrsta lagi er ég að láta draum minn um að leggja ofuráherslu á að spila á hljóðfæri, verða að veruleika. Eftir kirkjutónlistarnámið í háskóla eyddi ég 3 viðbótarárum í að sérhæfa mig sem einleikari. Ég hef aldrei getað leyft orgelleikaranum í mér að njóta sín vegna mikilla anna undanfarin ár. Nú gefst tækifæri og ég ætla að stökkva á það.
Ástæða tvö er annað tónleikahald. Ég hef undanfarin ár spilað á tugum tónleika á hverju ári með ólíkum listamönnum. Þetta hefur gefið mér mikið, en þar sem annirnar í kórstarfinu eru miklar, þá hef ég stundum ekki verið nógu vel undirbúinn á tónleikum. Mér líður ekki vel með það og nú ætla ég að leggja enn meiri áherslu á allskonar samstarf, klassískt, þjóðlagatónlist, popptónlist…
Þriðja ástæðan er sú að ég fann rétta aðilann til að taka við kórnum. Sá yndislegi drengur og frábæri kórstjóri heitir Þorvaldur Örn Davíðsson. Þið þekkið tónlistina hans, og munuð kynnast göldrum hans fyrir framan kór. Yndislegur drengur og ákaflega góður tónlistarmaður. Það eru tvö ár síðan ég fór að velta þessum breytingum fyrir mér af alvöru, en ég var ekki tilbúinn til að hætta fyrr en rétti aðilinn til að taka við kórnum væri fundinn. Mín Magnaða vinkona og samstarfsmaður, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir er í fullu starfi með barnakórana og helling af helgihaldi og gat því ekki tekið við kórnum. En í vetur, þegar það kom í ljós að Þorvaldur hefði áhuga á að flytjast norður fórum við Sigrún að hugsa þessa breytingu af alvöru. Við hlökkum mikið til að fá Þorvald við hlið okkar við kirkjuna.
Ég verð eins og áður sagði í 70% spilastöðu. Mun án efa spila meira við messur og aðrar athafnir kirkjunnar.
Ég mun án efa sakna kórsins sárt, en ég hlakka líka til að takast á við ný og spennandi verkefni sem þegar eru á teikniborðinu.
Ég á engin orð til að lýsa þakklæti mínu fyrir árin 22 sem ég hef á einn eða annan hátt unnið með Kór Akureyrarkirkju. Fyrst í afleysingum og svo síðustu 15 árin sem aðalkórstjóri. Ég er líka þakklátur samstarfsfólki mínu og sóknarnefnd að gefa mér tækifæri til að breyta til.
Hlakka til áframhaldandi samstarfs við messur og á tónleikum
Vertu velkominn elsku Þorvaldur!
Comments